Frá óvissu til ævintýra
Í mars 2025 fagnar Sóti Summits því að hafa starfað í fimm ár – og það má með sanni segja að frá 2020 hafi þetta verið fimm ár ævintýra, áskorana og dýrmætrar reynslu. Fyrstu tvö árin urðu ólík öllu sem við höfðum ímyndað okkur. Ferðaþjónustan lagðist því sem næst í dvala, en það gaf okkur líka óvænt tækifæri: við gátum prófað okkur áfram með nýjar hugmyndir, þróað fjölbreyttar ferðir og hlustað grannt á viðbrögð þeirra gesta sem komu. Það mótaði starfsemina okkar og gaf okkur þann sveigjanleika og sköpunarkraft sem við byggjum á enn í dag.
Fjölbreytt ferðaúrval – mótað af reynslu
Í dag býður Sóti Summits upp á fjölbreytt ævintýri fyrir ferðalanga allt árið um kring. Árið hefst hjá okkur með gönguskíðaferðum og -námskeiðum, en þegar líður á veturinn blómstrar fjallaskíða- og þyrluskíðastarfsemin með Summit Heliskiing, þar sem íslenskir fjallaleiðsögumenn leiða gesti um fjalladýrðina nyrst á Tröllaskaga. Á vorin og sumrin fyllast dagarnir af fjallahjólaferðum, gönguferðum og bátsferðum á Örkinni um Siglufjörð – allt skipulagt og hannað á. Grunni ástar okkar á svæðinu, sögu þess, nátturunni og fólkinu sem hér býr.
Við höfum skilgreint okkar eigin nálgun á ferðirnar okkar: nálægð, staðarþekking, vönduð leiðsögn og hlýtt andrúmsloft. Við trúum á gæði fram yfir fjölda – og reynum að bjóða hverjum einstökum gesti sína eigin, einstöku upplifun.
Þakklæti til gesta – ykkar upplifun skiptir öllu máli
Það sem hefur haldið okkur gangandi á þessari vegferð eruð þið – gestirnir okkar. Umsagnir ykkar, bæði í orði og á svip, eru okkur hvatning og innblástur. Í gestabókinni okkar hafa safnast hlkýjar kveðjur sem okkur þykir vænt um, en við kunnum ekki síður að meta umsdagnirnar á samfélagsmiðlum. Á Google-síðu Sóta Travel höfum við fengið fullt hús stiga – 5,0 í meðaleinkunn – og falleg skilaboð á borð við:
„Einstök upplifun – leiðsögumaðurinn frábær og þjónustan hlý og fagleg“,
og
„Ferð sem börnin tala enn um! Þökkum kærlega fyrir yndislega upplifun“.
Sumir hafa komið aftur og aftur, og það finnst okkur ómetanlegt. Þetta traust – að fólk treysti okkur fyrir sínum dýrmætu frídögum – er hjartað í öllu sem við gerum.
Framundan: Fleiri ævintýri, meiri tenging
Við lítum yfir þessi fyrstu fimm ár með stolti, auðmýkt og miklu þakklæti. Upphafsárin voru óvenjuleg, en þau kenndu okkur að vera sveigjanleg, skapandi og þrautseig. Nú hlökkum við til næstu ára – að taka á móti nýjum gestum, sjá gamla vini snúa aftur og halda áfram að deila töfrum norðursins með fólki hvaðanæva að.
Takk fyrir að vera hluti af þessari vegferð. Við hjá Sóta Summits fögnum ykkur alltaf með opnum örmum – og hlökkum til að skrifa næstu kafla saman.