Afmæli – húrra!
Fyrir réttu ari, 15. maí 2020, hóf Sóti Summits starfsemi sína með því að Sóti Lodge opnaði dyr sínar fyrir fyrsta fjallaskíðahópnum. Þessu var fagnað um helgina með þátttakendum í fyrsta námskeiði okkar, sem heimsóttu okkur að nýju á eins árs afmælinu og með þátttakendum í vel heppnuðu kayaknámskeiði Veigu Gretarsdóttur.
Eins árs þroskaskeið
Eitt ár er ekki langur tími i rekstri fyrirtækis, en við sem stöndum að Sóta Summits lítum stolt um öxl á þessum tímamótum. Við höfum á þessu ári þróað og hannað fjölbreytt úrval hágæðaferða, þar sem saman fara faglegt skipulag, frábærir leiðbeinendur og leiðsögumenn. Í ferðunum okkar er hlúð að bæði innri og ytri vellíðan gesta, þar sem saman fer frábær aðstaða og hágæða þjónusta á Sóta Lodge.
Gæði og fjölbreytni
Gæði þjónustunnar á Sóta Lodge eru rómuð – við fullyrðum að sú þjónusta, aðstaða og viðurgjörningur sem við bjóðum á sér fáar samsvaranir hér á landi. Ferðaúrval okkar endurspeglar fjölbreytileg tækifærin á Tröllaskaga allt árið um kring, þar sem hver árstíð á sér upplifun sem hvergi er hægt að finna með sama hætti annarsstaðar.
Ánægðir gestir
Gestir okkar hafa glatt okkur með athugasemdum og hrósi – en sér í lagi hefur það glatt okkur að sjá ánægða gesti koma inn að kvöldi með nýja reynslu í farteskinu, njóta alls hins besta í mat, drykk og nærandi hvíld – og drífa sig svo út að morgni full eftirvæntingar og gleði. Okkar einlægasta markmið er að tryggja ánægju gesta okkar og eftirminnilega ferðaupplifun.
Frábærir samstarfsaðilar
Við höfum átt því láni að fagna að stofna til samstarfs við aðra einstaka þjónustuveitendur; Sólir jógastúdíó hefur haldið utan um jógatímana okkar, Langhús boðið hestaferðir, Veiga Grétarsdóttir hefur stýrt frábæru kajaknámskeiði, Sævar Birgisson leiðbeint skíðagöngufólki, og Summit heliskiing séð um þyrluskíðaferðir, svo fátt eitt sé nefnt. Við hlökkum til að styrkja samstarf okkar enn frekar við fagfólk út um allt land.
Sumarið er tíminn!
Fram undan bíður sumarið. Við höfum nú birt sumardagskrána okkar og þar kennir margra grasa og fjölbreyttrar flóru, eins hægt er að kynna sér hér. Boðið verður upp á gönguferðir í fylgd þrautreyndra leiðsögumanna, spennandi fjallahjólaferðir undir stjórn fjallahjólakappanna okkar, kajaknámskeiðin verða endurtekin og rósin í hnappagatinu er einstök ævntýraferð, þar sem paakkað hefur verið í eina ferð úrvali ævintýra og skemmtunar að hætti Sóta.
Fyrir þau ykkar sem vilja fá sendingar frá okkur beint og reglulega, bjóðum við ykkur jafnframt að skrá ykkur á póstlistann okkar hér til að fá sendar upplýsingar um ferðir og þjónustuúrvalið okkar.
Þegar eigendur Sóta Summits hófu endurbyggingu gamla skólahússins að Sólgörðum á haustdögum 2017, í því skyni að bjóða hágæðagistingu fyrir náttúru- og ævintýraþyrsta ferðamenn, óraði engan fyrir því ævintýri sem biði. Við trúum því að Sóti Summits eigi framtíðina fyrir sér og höldum áfram að þróa fágætisferðamennsku fyrir ævintýraþyrsta ferðalanga – á ystu mörkum Norðurlands.
Við hlökkum til að sjá ykkur!