Ævintýraleg skíðagönguvertíð
Fólki hefur orðið tíðrætt um hina rysjóttu tíð sem einkennt hefur þennan vetur. Og vissulega hafa snjóalög stundum verið undir væntingum og vindar blásið meir en hóflegt má teljast.
Þátttakendur í skíðagöngunámskeiðum Sóta Summits hafa þó tekið hverri áskorun fagnandi, og með hjálp okkar frábæru leiðbeinenda, Stellu Hjaltadóttur og Sævars Birgissonar, skorað veðurguði á hólm og notið útivistar, fræðslu, þjálfunar og huggulegheita í Sóta Lodge og nágrenni.
Skíðagöngunámskeiðunum fer nú fækkandi og hver að verða síðastur að tryggja sér pláss á aukanámskeiði sem sett hefur verið á um bænadagana.
Fjallaskíðin næst á dagskrá
Með hækkandi sól fara unnendur fjallaskíðamennsku á kreik og Sóti Summits býður ferðir og námskeið í fremstu röð. Við erum stolt af samstarfi okkar við einhverja færustu fjallamenn Íslands og vitum að það verður enginn svikinn af því að fara úm að leika með þessum köppum – reynsla þeirra tryggir líka að gestir okkar verða bæði öruggir og uppnumdir, hvort sem kosið er að nýta sér fjallaskíðahelgarnar sem í boði eru, eða taka sér far með þyrlu hjá systurfélagi okkar, Summit Heliskiing.
Já, það er fátt sem veitir meiri sælu en vel heppnuð skíðaferð í dásamlegri náttúru. Ljúf dvöl á Sóta Lodge er svo værðarvoðin utan um upplifunina. Við hlökkum til að dekra við gesti okkar og skapa með þeim einstakar minningar.