Skammdegið hefur slegið eign sinni á dagsljósið að sinni, rökkurtýran er orðin að ríkjandi birtuskilyrðum og hryssingsleg slyddan er fyrirboði bjartari tíð með snæviþöktu landslagi. Þá fer ekki hjá því að okkur langi til að kúra bara og hafa það huggulegt, gera vel við okkur og slaka á.
Haldið til fjalla
Það er þó á þessum tíma sem sumir nútímamenn finna hjá sér þörf til að færa björg í bú, ganga a fjöll og sækja jólaforréttinn. Kannski er það ekki síður hressandi útiveran sem heillar, félagsskapur góðra vina og tækifæri til að gera vel við sig. Takmarkanir á veiðum til varnar rjúpnastofninum koma ekki í veg fyrir að hægt sé að eiga minnistæða helgi í faðmi fjalla. Fyrsti hópurinn hefur þegar átt góðar stundir á Sóta Lodge – en það er enn pláss fyrir þá sem vilja spreyta sig á því að ganga til rjúpna í Fljótum.
Aðventa jóla
Og svo brestur aðventan á; það líður að jólum. Við erum þegar farin að njóta birtunnar af jólaskreytingum og í huganum farin að huga að því hvernig megi best skipuleggja þannig að þessi tími verði sem mest hátíð upplyftingar og ljóma. Margir ganga þá inn í fastmarkaðar venjur, sem geta verið huggun í heimi örra breytinga. Sú festa sem fylgir sama fyrirkomulagi, sömu dagskrá og sömu matseðlunum gefur okkur festu og skjól. Hinum fullorðnu veita jólavenjur tækifæri til að endurupplifa tilfinningar bernskunnar.
Aðventan er hins vegar frekar tími forvitni og nýjabrums, meira að segja hjá þeim vanaföstu. Aðventuferðir til annarra landa hafa orðið vinsælar, ekki síst til Evrópu, þar sem hefð er fyrir glæsilegum jólamörkuðum í miðaldaborgum. Fólk finnur sér í æ ríkari mæli tilefni til að nýta aðventuna til matarupplifunar og samveru í fallegu umhverfi. Til þess þarf ekki að fara yfir úthöfin – nýstárleg upplifun bíður, nær en nokkurn grunar.
Sóti Lodge býður til aðventuveislu með fimm rétta jólamatseðli, þar sem íslenskar og franskar matarhefðir mætast. Hægt er að bóka eina nótt og eiga stund með sínum nánustu í dásamlegu umhverfi Fljóta í Skagafirði. Einnig er freistandi að taka frá heila helgi, upplifa útiveru á Tröllaskaga á aðventu og hafa það huggulegt þar sem friðsældin ríkir. Ekki skemmir fyrir að skíðasvæðið í Skarðsdal opnar 4. desember.
Verið velkomin – og gleðilega aðventu.