…er gjarnan sungið um áramót.

Hér nyrst á Tröllaskaga er það raunar tunglið sem ræður ríkjum á himinhvolfinu, um áramót. Sólin lætur ekki sjá sig fyrr en undir lok janúar og er þá orðið heldur seint fyrir áramótaboðun. Það er þó eitthvað misskipt hverjum hún sendir geisla sína – Hún hefur þegar gægst yfir fjallstoppana í Austari-Fljótum, en er rétt farin að vinka í Hvanneyrarskál á Siglufirði. Allt kemur þetta þó; á meðan við bíðum lengri daga njótum við dulúðugrar birtunnar frá tungli og stjörnum og njótum þess að ganga í næturbirtu með brakið í snjónum undir fótunum.

Kannski hefur það verið svona gegnum aldirnar. Þrátt fyrir að lífsbaráttan hafi verið hörð og óvægin oft á tíðum, hefur eitthvað eðlislægt í okkur ævinlega gert okkur kleift að halda áfram, bíða sólar og binda vonir við framtíðina. Þegar við sjáum fram á endurkomu sólar birtir líka í sálinni. Stundum þarf bara að rifja upp tvíræða vísu til að minna á hvernig himininn getur glætt vonir um framtíðina, ástina og hlýjan félagsskap (vísan er úr rímnabálki Arnar Arnarsonar, Dómadagsræða Odds sterka):

Kveð ég hátt uns dagur dvín,
dýran hátt við baugalín.
Venus hátt í vestri skín.
Við skulum hátta elskan mín.

Enn grúfir skammdegismyrkrið yfir, stjörnur sindra á himni og tunglið er stundum svo nálægt að það er næstum eins og hægt sé að snerta það með fingurbroddunum. Upp úr áramótum hélt Venus sig afar næri Mána og skein svo skært í vestri að hún ein og sér varpaði birtu á jörð. Það eru tunglið og næturhiminninn sem boða okkur tíðindin um áramótin hér við Norðuríshaf og undanfarnar vikur hafa skilaboðin verið afar falleg.

Við bíðum skíðatímabilsins með eftirvæntingu

Á Sóta Lodge er verið að undirbúa komandi skíðavertíð. Kennarar og leiðsögumenn eru að setja sig í stellingar. Hótelstarfsfólk rýnir í matseðla og vistir til að tryggja notalega og endurnærandi heimsókn gesta. Vetrarferðirnar eru okkar yndi og í vetur hlökkum við til þess að bjóða skíðafólk af öllu tagi velkomið. Gönguskíðanámskeiðin okkar gleðja sem fyrr og fjallaskíðaferðir og námskeið njóta vaxandi vinsælda. Þegar sólin er komin hátt á loft hefjum við okkur svo til flugs og leitum þyrluskíðaævintýra í einstöku fjallalandslagi Tröllaskaga.

Vaxandi tungl um áramót boðar gott fyrir komandi ár og nú kemur sólin bráðum. Verið velkomin í vetrarparadísina í Fljótum.

Sólarmynd @Halldór Gunnar Hálfdánarsson