Við leggjum orkuskiptum á Íslandi lið!
Landið okkar er einstakt. Allt vekur aðdáun í umhverfi okkar: stórbrotin og margbreytileg náttúran, samspil ólíkra krafta í mótun lands, fábreytileiki plöntu- og dýralifs og brothætt þvermóðska þeirra lífvera sem hér dafna. En náttúran er viðkvæm og að henni þarf að hlúa .
Samfélagið okkar er ekki síður einstakt. Smæðin, en lika fjölbreytileikinn í ásýnd bæja og þorpa, tengslin og samheldnin þegar á bjátar og ekki síst menningin í öllum sínum margbreytileika, sem birtist með svo margvíslegum hætti út um allt land. Við erum stolt af því að búa og starfa í nyrsta kaupstað landsins og vera þátttakendur í því samfélagi sem þar dafnar.
Sjálfbærni á Sóta
Hjá Sóta Summits hafa ábyrg starfsemi og sjálfbærni verið leiðarstef frá upphafi. Strax á fyrstu dögum starfsemi okkar skilgreindum við umhverfisstefnu fyrirtækisins og höfum leitast við að fylgja henni eftir síðan. Í umhverfisstefnunni beinum við sjónum okkar einkum að nærumhverfi okkar, fólkinu sem hér býr, menningunni sem hér þrífst og náttúrunni sem við nýtum í starfsemi okkar.
En við viljum líka vera þátttakendur í stærri verkefnum sem sett eru af stað fyrir land og þjóð. Þess vegna leituðum við til Orkusetursins og óskuðum eftir stuðningi við þá fyrirætlun okkar að setja upp tvær hleðslustöðvar við Barðslaug, sundlaugina að Sólgörðum, við hliðina á hótelinu okkar, Sóta Lodge. Orka Náttúrunnar lagði til stöðvarnar, en Tengill á Sáuðárkróki sá um uppsetninguna.
Snjórinn í Fljótum
Fljótin eru ein mesta snjóakista landsins, enda tökum við á móti fjölda skíðafólks af öllu tagi á veturna. Hér er vagga íslenskrar skíðamennsku og hvergi betra að æfa tæknina á gönguskíðum, skinna upp á fjallaskíðum, eða koma hjartslættinum í gang í þyrluskíðun. Til að tryggja aðgengi allra rafbílaeigenda að hleðslustöðvunum burtséð frá snjóalögum, fjárfestum við í tveimur 10 m löngum hleðslusnúrum. Þær lánum við gestum sé þess óskað.
Við erum stolt af okkar þætti í að þétta net hleðslustöðva hér á landi.
Sala er í fullum gangi þessa dagana og mikil aðsókn að vetrarævintýrunum á Sóta Lodge.
Við bjóðum rafbílaeigendur sérstaklega velkomna!