Á undanförnum árum hafa æ fleiri Íslendingar uppgötvað hversu dásamleg íþrótt gönguskíðamennskan er. Þegar ferðast er á gönguskíðum kemur saman allt það besta sem útivistarfólk leitar eftir: líkamsrækt og hreyfing, útivera, náttúruupplifun og félagsskapur. Fólk áttar sig ekki alltaf á því að gegnum gönguskíðin opnast líka gátt inn í samgöngusögu landsins, ekki síst hér á Tröllaskaga.
Útivist og dekur
Fjöldi Íslendinga hefur sótt gönguskíðanámskeið hér á landi og hafa námskeið á Norðurlandi notið mikilla vinsælda. Fólk er að uppgötva hversu einfalt það er að bregða sér í helgarferð norður í land til að læra grunnatriði líkamsbeitingar og gönguskíðatækni, nú eða skerpa á þekkingu sem fyrir er. Umgjörðin sem boðið er upp á gerir námskeiðin að eftirsóknarverðri hvíld frá amstri og streitu hversdagsins.
Sóti Summits hefur boðið upp á vinsæl námskeið, þar sem fámennir hópar njóta persónulegrar handleiðslu færustu kennara og dásamlegs atlætis á Sóta Lodge. Tröllaskagi er raunar gósenland námskeiðahalds á þessu sviði og fjölmenn námskeið eru t.d. haldin á Sigló Hótel, þar sem þrautreyndir þjálfarar skíðafélaganna í Fjallabyggð sjá um kennsluna. Gönguskíðanámskiðin hér á landi geta þannig verið blanda af því að stæla skrokkinn með heilbrigðri útivist og ljúfu dekri á líkama og sál.
Næstu áfangar og ný upplifun á gönguskíðum
Þegar búið er að afla sér þekkingar og reynslu við brautarskíðun á vinsælum svæðum í byggð, kviknar oft löngunin til að skíða víðar og kanna ókunnar lendur. Gönguskíðaferðir á erlendar slóðir hafa um árabil verið vinsælar. Víða er enda sterk hefð fyrir því að leggja langar brautir fyrir skíðagöngufólk, jafnvel milli bæja og áfangastaða í óbyggðum. Brautarlagning fyrir gönguskíði er raunar meiri nútímaferðamáti – gönguskíði gögnuðust ferðalöngum á norðurslóðum um langa hríð, án þess að fara þyrfti troðnar slóðir.
Gönguskíði voru þannig löngum mikið nýttur fararmáti á norðanverðum Tröllaskaga, enda eru Fljótin stundum nefnd „vagga íslenskrar skíðamennsku“. Fólk ferðaðist milli bæja á skíðum yfir vetrartímann í snjóakistu Fljótanna, um heiðar og milli fjarða hér við nyrstu strandir.
Nú, þegar vaxandi fjöldi Íslendinga hefur uppgötvað gönguskíðaíþróttina sér til skemmtunar og uppyftingar, opnast tækifæri til að renna sér í skíðaspor forfeðra okkar og upplifa frelsið sem felst í að ferðast á skíðum um heiðar og firði.
Spennandi ferð á vordögum
Sóti Summits býður slíka kynnisferð við upphaf Dymbilviku, þar sem ferðast verður í tvo daga undir leiðsögn þrautreyndra fararstjóra, Sóleyjar Elíasdóttur (kenndri við Sóley Organics) Björns Z. Ásgrímssonar og Sóleyjar Ólafsdóttur. Þriðji dagurinn er gefinn frjáls til eigin landkönnunar. Gist er á Sigló Hótel í þrjár nætur, þar sem tækifæri gefst til að slaka á í heitum potti og sánu og nýta sér margrómaða þjónustuna á þessu gæðahóteli. Jógastundir eru innifaldar í dagskrá ferðarinnar, undir handleiðsu Sóleyjar Elíasdóttur.
Í þessari ferð gefst þátttakendum tækifæri til að nýta sér þekkinguna úr fyrri námskeiðum og spreyta sig í frjálsri för á skíðum.
Uppgötvaðu vetrardýrðina nyrst á Tröllaskaga og tryggðu þér pláss sem fyrst – hægt er að bóka ferðina hér.