Þá tekur aðventan við…
…og rétt að huga að jólum, snjónum, skíðaferðum og hvernig við getum glatt okkar nánustu. Sóti Summits býður gjafabréf sem gilda í alla þjónustu okkar og ferðir – það er hægt að gefa eftirvæntingu og gleði að sumri jafnt sem vetri.
Haustið hefur verið viðburðarríkt
Þetta hefur verið viðburðarríkur nóvember, heldur betur. Kosningar í Bandaríkjunum og hjá næstu nágrönnum okkar a Írlandi, að ekki sé minnst á sögulegar kosningar hérlendis. Eldgos, óveður, sumarhiti og fimbulkuldi, allt í einum og sama mánuðinum.
Tilhugsunin um jólin hefur hreinlega á stundum vikið fyrir atburðarrásinni, en nú er lag.
Nú líður að jólum
Hér nyrst á Tröllaskaga er aðventan tími ljóss og birtu, þrátt fyrir að sólin sé farin í tímabundna hvíld. Fallega skreytt híbýli gleðja augað þegar keyrt er um Fljótin, sveitabúðin að Brúnastöðum er tilbúin með jólakræsingar og á köldum heiðbjörtum nóttum dansa norðurljós um himininn. Hrossin eru komin í loðkápurnar og skapa knöpum sínum ómældar gleðistundir.
Í Fjallabyggð leggja íbúar Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sig alla fram um að lýsa upp skammdegið og það er ekki laust við að birtan nái inn að hjartrótum þegar keyrt er um göturnar. Hver viðburðurinn rekur annan, upplestrar, tónleikar, markaður og listviðburðir; margir hverjir ókeypis fyrir íbúa og til þess ætlaðir að gleðja og skapa samveru.
Að loknum skóladegi glymja hlátrasköll barna um bæinn. Þau kveikja minningar um horfna bernsku og útileiki í snjónum í hugum þeirra sem eldri eru. Þeir leikir eru líka hluti aðventu og jóla og við, þessi fullorðnu, tökum fram skíði, snjóþrúgur og sleða og gleymum okkur sjálf í útileikjum. Skíðasvæðið í Skarðsdal opnar 21. desember og þá verður gaman.
Gefðu glaðværar stundir
Gjafabréfin okkar hafa verið vinsæl í jólapakkann á undanförnum árum. Þau gilda í allar ferðir og þjónustu sem við bjóðum upp á, sumar og vetur. Þau gilda líka í þyrluskíðaferðirnar, sem við bjóðum í samvinnu við Summit Heliskiing – og það eru engin takmörk á gildistíma.
Um leið og við óskum öllum glaðværrar aðventu með vinum og vandamönnum, bjóðum við ykkur að hafa samband á info@sotisummits.is og kanna möguleikann á að gefa eftirvæntingu og tilhlökkun í jólagjöf.
Það veitir okkur fátt meiri gleði en að fá að taka á móti spenntum gestum.